Þynnka
5.2.2007 | 12:33
Sæl verið þið.
Hér kemur örblogg á mánudegi:
Helgin:
- Föstudagskvöld. Fór í mat í Lindarsíðuna, horfði á X factor sem hefur náð smá flugi að mér finnst. Ætlaði aðeins að kíkja í eina ölkrús á Kaffi Ak en þær urðu fjórar eða fimm Kom heim kl. fjögur.
- Laugardagsmorgun. Gekk ágætis maraþon með Huldu og pabba. Gengum hreinlega af göflunum. 12 kílómetrar að baki áður en klukkan sló hádegi. Fórum í pottinn í sundlauginni, lagði mig og fór svo út í sveit. Þorrablót til kl. rúmlega þrjú. Gleði og gaman.
- Sunnudagsmorgun og Pétur liggur í rúminu. Rauðeygður, rámur og risið á honum er lágt. En það lagast nokkuð fljótt. Fórum í bollukaffi til mömmu, já forskot á sæluna og þar var Inga Björk með Jóhönnu Margréti. Ákaflega fallegt og yndislegt barn. Svo var lagst yfir videó í sófanum heima. Um kvöldið fórum við Hulda á Svartan kött hjá LA.
- Mánudagur. Ný vinnuvika með bros á vör
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Strákarnir okkar eru samt frábærir
30.1.2007 | 23:37
Það hefur verið erfitt að róa sig niður í kvöld eftir tap gegn Dönum.
Frómt sagt fannst mér óþolandi að sjá smettið á þessum helvítis Dönum eftir sigurinn. Við vorum 4-5 cm. frá því að vinna þá en svona eru íþróttirnar.
Handbolti er frábær íþrótt, HM hefur verið rosalega skemmtilegt og þetta er svo sem ekki búið, þ.e.a.s. við eigum eftir að sjá tvo leiki með strákunum okkar.
Því miður fannst mér eins og að við misstum mjög gott tækifæri í kvöld sem við fáum ekki næstu ár eða áratugi. Sjáum til.
Ætla að reyna að sofna
Á morgun kemur nýr dagur og þá get ég haldið áfram að bölva dönsku þjóðinni
Guð blessi ykkur öll, nema að þið séuð dönsk
góða nótt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Andlaus
29.1.2007 | 20:56
Við höfum nú farið yfir þetta áður, andleysi.
Frá því ég man eftir mér hef ég nánast flogið á hugmyndafluginu, uppátæki furðuleg og mikill sveimhugi. Fyrir vikið hef ég þurft að fá útrás á ýmsum vettvangi sem margir, sérstaklega systkini mín, hafa kallað athyglissýki. Eðlilega.
Ég hef mikla sköpunarþörf og þarf að búa eitthvað til á hverjum degi, nema kannski á sunnudögum, þá er hvíldardagur. Ég meina, meira að segja Guð sjálfur tók sér þá frí frá sköpunarverkinu.
Þegar ég horfi til baka sé ég ýmislegt eftir mig sem ég hef gert og er nokkuð ánægður með. Ég hef líka ákveðið ýmislegt sem ég ætla að gera. Næst á dagskrá er bók. Efni er ákveðið og byrjunin er komin á tölvuborðið og megnið er í kollinum. En það situr þar fast
Sköpunarheilastöðin hefur verið í fríi í marga mánuði. Þetta kemur fram á blogginu sem er oft óttalega andlaust og innihaldslítið.
Þetta þykir mér vera frekar fúlt og vona að það kvikni á skaparanum í mér.
Því miður, orð dagins er: ANDLEYSI
Kommentið svo ef þið hafið ekki öll yfirgefið mig
SJÁUMST
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
HM og Júró
27.1.2007 | 10:12
Gúd móníng.
Þetta er náttúrulega ellimerki að maður sé vaknaður kl.níu á laugardagsmorgni eftir djamm í gærkvöldi. Við Hulda vorum á árshátíð Kórs Glerárkirkju og Kórs Akureyrarkirkju. Ég var veislustjóri í partý-inu og það er skemmst frá því að segja að það var stuð. Þetta er skemmtilegt fólk sem kann að skemmta sér.
Í dag er leikur við Slóvena á HM. Ég óttast hann en um leið trúi að við vinnum hann. Slóvenar spöruðu sig í síðasta leik, nokkuð sem er að verða þekkt í þessari keppni. Vonandi verður dómgæslan þokkaleg en ekki slæm, sem líka er að verða þekkt í þessari keppni.
Við deilum þó ekki um eða við dómarann, látum hendur standa fram úr ermum og gerum okkar- gerum okkar -gerum okkar -gerum okkar BESTA. Það verður að vinna þennan leik. ÁFRAM ÍSLAND.
Svo í kvöld er undankeppni Eurovision. Eftir stórslys síðasta laugardagskvölds á ég von á betri lögum í kvöld.
Eins og ég sagði áður er Friðrik Ómar með gott lag og verðugur fulltrúi. Hann hefur verið lasinn strákurinn en ég trúi að sterasprauturnar komi honum í gegnum þetta.
En er nokkur hætta að hann verði tekinn í lyfjapróf eftir keppnina?? Nei, segi bara svona.
Koma svo, kjósum Friðrik Ómar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldur í Eurovision
24.1.2007 | 14:07
Það var nú ekki mikill eldur í lögunum í Eurovisin- undankeppninni síðasta laugardagskvöld. Mér fannst þetta meira og minna mjög aumt að öllu leiti. Umgjörð keppninnar var einhvern veginn svo amatöraleg. Og svo voru það lögin. Sumir textarnir pössuðu ekki við lögin og mér fannst þetta eins og hver annar rútubílasöngur. Aðeins tvö lög sem mér fannst áheyrileg.
En næsta laugardagskvöld stígur undrabarnið frá Dalvík, Friðrik Ómar á stokk og hann heggur sko ekki á sér hælinn þó númerið sé smátt. Hann syngur lagið: Eldur eftir Grétar Örvars og Kristján Grétars. Ég hef heyrt þetta lag og líst vel á. Vissulega vil ég styðja strákinn en það er meira en það. Kraftur í laginu.
Sendum Friðrik Ómar í Eurovision. Ég skora á hann að heita á mig, að komist hann áfram, þá bjóði hann mér með til Finnlands. Það er nefninlega mjög gott að heita á mig eins og hana ömmu mína sem ég er skírður eftir.
Svo kjósum Friðrik Ómar á laugardaginn og sjáum hvort hann tekur áskorununni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Aumingi með h.......
23.1.2007 | 11:49
Sælt veri fólkið. Þá er loksins komið að því að blogga.
Aðeins varðadi síðustu færslu: Þetta var nú raunar bara skáldskapur með tilvísan í það hvað við lærum oft illa á mistökum. Sennilega er þetta einhver hluti af sjálfum mér, þarna inn á milli en það er enginn fullkominn en samt betur fer alltaf að læra.
Það hefur margt drifið á daga mína að undanförnu. Þessa stundina er ég veikur heima og er þetta annað skiptið á mánaðartímabili. Hvurslags
Haukur er í heimsókn hérna þessa dagana, er í Borg óttans á námskeiði. Kom til Akureyris um helgina og hélt upp á fertugsafmælið. Sumir segja að ég sé enn timbraður eftir afmælið en svo er nú ekki. En það var gaman að sjá kappann og munum við vonandi hittast töluvert á meðan hann er hérna.
Svavar aftur á móti fluttur til Danaveldis. Þau fóru á föstudaginn og stefna á mikla landvinninga þar. Þið getið séð allt um það á bloggsíðunni hans hér til hliðar. (vinstra megin)
Annars finnst mér lífið vera frekar skrítið þessa dagana Er ekki alveg viss hvort ég er að koma eða fara........Það má svona segja að ég sé í smá naflaskoðun og eiginlega í smá lægð. Allt sem fer upp, kemur niður....og fer svo aftur upp. Meira um þetta síðar.
Jæja, ætla að halda áfram að vorkenna mér
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dagur í lífi manns
11.1.2007 | 12:27
Mánudagsmorgun.
- Blogg- síðan komst í dagbók sem lýsir degi í lífi manns. Nöfn og staðir eru ekki gefnir upp.
07:55 Rumskaði við hávaðann frá nágrannanum. Hvað er að þessu liði. Fór fram úr rúminu. Gerbragð í munninum. Furðulegt að maður megi ekki fá sér nokkra bjóra, þá verði maður timbraður. Annars man ég varla hvað þeir voru margir
08:00 Kveikti á útvarpinu. Áttafréttirnar fóru í loftið : Að minnsta kosti sjö liggja andlega þungt haldnir eftir að Sjónvarpið sýndi í gærkvöldi þáttinn Tíu fingur-. Samkvæmt rannsókn frá Lýðheilsustöð hafa allt að þrjátíu og átta farið yfir um á geði og fjórir reynt sjálfsvíg frá því að þátturinn fór í loftið. Páll Magnússon útvarpsstjóri segir að ekki standi til að taka þáttinn af dagskrá því búið sé að gera samning upp á liðlega þrjú hundruð þætti. Jónas Sen, stjórnandi þáttarins segist ekki hafa slæma samvisku gagnvart þessu.
08:27 Sjö kaffibollar að baki og tvær sígarettur. Kannski er þetta met? Rétt að koma sér í spjarir.
Ahh! Engin skyrta!!! Djöf. Allar í þvottakörfunni. Ekki get ég látið sjá mig á skrifstofunni í einhverjum bol. Ég tók á það ráð að fara í bol og peysu til að byrja með. Fer svo bara til hans Ragnars í Gróða eftir kaffi og kaupi af honum nýja skyrtu.
08:44 Ég settist upp í bílinn. Andskotinn, hann er að verða bensínlaus. Æji, það hlýtur að sleppa.
09:02 Kominn í vinnuna. Ömurlegt. Þoli ekki mánudaga!
10:22 Kom inn í búðina hjá Ragnari í Gróða. Hann kom brosandi á móti mér. Það er nú meira hvað hann er alltaf hress. En spurning hvort hann meinar eitthvað með því. Sennilega ekki nema hann hljóti gróða af því.
12:00 Matartími. Best að skreppa út. Nenni ekki að hanga með þessu liði hérna. Keyri í bílalúguna. Einn hamborgara og franskar
12:05 Loksins kemur hammarinn. Maður verður nú að fá sér eitthvað uppbyggilegt svona á mánudegi. Annars má maður ekki borða mikið af þessu. En djöfull er nú hann Óli á skrifstofunni er orðinn feitur ....nei, hefur hún ekki sett aukadollu af kokteilsósu, ummm.
13:00 Settist við skrifborðið. Mér leið nú ekki nógu vel, fötin þrengja að mér. Sennilega hafa þau hlaupið í þvottinum. Þarf að fá mér nýja þvottavél, þessi skemmir fötin.
16:00 Stend upp frá skrifborðinu. Ég er að drepast í hausnum og það verður gott að koma heim.
16:04 Sest upp í bílinn og keyri í burtu.
16:11 Bílinn höktir .hann er bensínlaus.
17:37 Ég er kominn heim efir að hafa þurft að labba á bensínstöð og til baka með bensín í brúsa. Sennilega borgar sig að taka bensín áður en bíllinn verður bensínlaus.
21:06 Fimm bjórar búnir. Best að gleyma deginum hann var leiðinlegur. Sjónvarpið er ömurlegt. Setti spólu í tækið með fyrstu átján þáttunum af ;Maður er nefndur
22:37 Dauður í stólnum úr leiðindum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýr bloggari
11.1.2007 | 10:14
Helló.
Það er kominn nýr bloggari í hópinn. Svavar bróðir er kominn með bloggsíðu. Það er hægt að klikka á link hérna vinstra megin. Reyndr skil ég ekki alveg útlitið hjá honum á síðunni. Maður er nú ekki að flíka því þessa dagana með hverjum maður heldur í ensku.... Nei, segi nú bara svona
Það eru bara Laufey og Guðbjartur eftir í blogghópinn af okkur systkinum..
Sjáumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áramótaheitin
9.1.2007 | 12:25
Samkvæmt rannsóknum springa flest áramótaheit á áttunda degi. Það er níundi í dag og ég er ekki enn sprunginn.
Hef núna farið nokkur skipti að sprikla eða gengið í vinnuna og finn strax mun á mér. Í morgun fór ég kl.06:20 út úr húsi í ræktina. Mér finnst það bestu tíminn. Þó er erfitt að mæta frosti og snjó svona nývaknaður en það birtir fljótt upp þegar maður er kominn í bjartan tækjasalinn með dúndrandi tónlist. Mun halda ótrauður áfram og passa líka upp á matarræðið. Þið hafið nú heyrt þetta áður en þetta er víst eilífðar barátta. Maður hefur þó eitthvað sameiginlegt með Hollywood-stjörnunum; alltaf í megrun.
Að vísu er Haukur bróðir að koma á klakann. Það þýðir að það verður borðaður góður matur og jafnvel smá vín.
En yfirskrift ársins 2007 er hófsemi.
Ekki meira í bili- klæðið ykkur vel. Það er frost á fróni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gleðilegt nýtt ár
2.1.2007 | 08:39
Sæl.
Sæl verið þið kæru vinir og ættingjar og gleðilegt nýtt ár. Þá hefur nýtt ár heilsað með vonum og væntingum.
Ég sagði frá því í síðustu færslu að ég hefði vonir og væntingar fyrir árið. Og ég strengi heit eins og vanalega. Það sem er kannski ólíkt við þessi heit fyrir þetta árið er, að þau eru smærri en skýrari, heldur en oft áður. Ekki ætla ég að fara mjög náið út í þetta en það sem skiptir mestu máli er að ég ætla að finna meiri frið innra með mér. Og það sem meira er, ég hef ákveðið og séð hvernig ég ætla að fara að því Mér finnst þetta nokkuð merkileg uppgötvun og er þetta að mörgu leiti afrakstur síðasta árs í sífellt meiri leit að þroska.
Ég fór í ræktina í morgun sem mér þykir árangur út af fyrir sig á fyrsta virka degi ársins. Ánægður með það.
Megi árið færa ykkur gleði og hamingju. Vonandi sé ég ykkur sem flest eða heyri í ykkur á blogginu.
Nýarskveðjur:
Pétur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)