Dagur í lífi manns
11.1.2007 | 12:27
Mánudagsmorgun.
- Blogg- síðan komst í dagbók sem lýsir degi í lífi manns. Nöfn og staðir eru ekki gefnir upp.
07:55 Rumskaði við hávaðann frá nágrannanum. Hvað er að þessu liði. Fór fram úr rúminu. Gerbragð í munninum. Furðulegt að maður megi ekki fá sér nokkra bjóra, þá verði maður timbraður. Annars man ég varla hvað þeir voru margir
08:00 Kveikti á útvarpinu. Áttafréttirnar fóru í loftið : Að minnsta kosti sjö liggja andlega þungt haldnir eftir að Sjónvarpið sýndi í gærkvöldi þáttinn Tíu fingur-. Samkvæmt rannsókn frá Lýðheilsustöð hafa allt að þrjátíu og átta farið yfir um á geði og fjórir reynt sjálfsvíg frá því að þátturinn fór í loftið. Páll Magnússon útvarpsstjóri segir að ekki standi til að taka þáttinn af dagskrá því búið sé að gera samning upp á liðlega þrjú hundruð þætti. Jónas Sen, stjórnandi þáttarins segist ekki hafa slæma samvisku gagnvart þessu.
08:27 Sjö kaffibollar að baki og tvær sígarettur. Kannski er þetta met? Rétt að koma sér í spjarir.
Ahh! Engin skyrta!!! Djöf. Allar í þvottakörfunni. Ekki get ég látið sjá mig á skrifstofunni í einhverjum bol. Ég tók á það ráð að fara í bol og peysu til að byrja með. Fer svo bara til hans Ragnars í Gróða eftir kaffi og kaupi af honum nýja skyrtu.
08:44 Ég settist upp í bílinn. Andskotinn, hann er að verða bensínlaus. Æji, það hlýtur að sleppa.
09:02 Kominn í vinnuna. Ömurlegt. Þoli ekki mánudaga!
10:22 Kom inn í búðina hjá Ragnari í Gróða. Hann kom brosandi á móti mér. Það er nú meira hvað hann er alltaf hress. En spurning hvort hann meinar eitthvað með því. Sennilega ekki nema hann hljóti gróða af því.
12:00 Matartími. Best að skreppa út. Nenni ekki að hanga með þessu liði hérna. Keyri í bílalúguna. Einn hamborgara og franskar
12:05 Loksins kemur hammarinn. Maður verður nú að fá sér eitthvað uppbyggilegt svona á mánudegi. Annars má maður ekki borða mikið af þessu. En djöfull er nú hann Óli á skrifstofunni er orðinn feitur ....nei, hefur hún ekki sett aukadollu af kokteilsósu, ummm.
13:00 Settist við skrifborðið. Mér leið nú ekki nógu vel, fötin þrengja að mér. Sennilega hafa þau hlaupið í þvottinum. Þarf að fá mér nýja þvottavél, þessi skemmir fötin.
16:00 Stend upp frá skrifborðinu. Ég er að drepast í hausnum og það verður gott að koma heim.
16:04 Sest upp í bílinn og keyri í burtu.
16:11 Bílinn höktir .hann er bensínlaus.
17:37 Ég er kominn heim efir að hafa þurft að labba á bensínstöð og til baka með bensín í brúsa. Sennilega borgar sig að taka bensín áður en bíllinn verður bensínlaus.
21:06 Fimm bjórar búnir. Best að gleyma deginum hann var leiðinlegur. Sjónvarpið er ömurlegt. Setti spólu í tækið með fyrstu átján þáttunum af ;Maður er nefndur
22:37 Dauður í stólnum úr leiðindum
Athugasemdir
Sæll Pétur. Það er gaman af þessari sögu, sýnir best að mannskeppnan lærir aldrei. Allavega þegar kemur af sumum hlutum.
Haukur (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.