Ferðasagan

Jæja kæru lesendur. 

Ég vil byrja á því að þakka fyrir fjölda heimsókna á síðuna mína, gaman að því. Þetta fór hins vegar aðeins öðruvísi en til stóð.  Eftir að hafa byrjað vel á blogginu, gafst ekki tækifæri til þess að fylgja því eftir.  Um borð var hægt að fara á netið en það var dýrt, hægvirkt og ekki íslenskir stafir.  Að auki var maður yfirleitt frekar upptekinn í því að spjalla við ferðafélagana eða gera eitthvað skemmtilegt.

Þetta var svakalega mikil ferð og mér líður eins og ég hafi farið í heimsferð.

Fyrsti dagur ferðarinnar, 29.maí, var frekar skondinn.  Við fórum á fætur eftir þriggja tíma svefn og vorum mætt á Leifsstöð kl. fimm að morgni. S íðan tók við flug til Kaupmannahafnar og þaðan til Alicante. Þetta tók auðvitað sinn tíma og vorum við komin á hótelið í Alicente kl.sjö um kvöldið, þá fimm á ísl.tíma.  Okkur fannst hótelið sem við fengum, ekki mjög spennandi til að byrja með. En það var nokkuð rúmgott en eldgamalt og óþægileg rúm.  Fórum út að borða og þar lentum við á þjón sem var latur, leiðinlegur og slefaði í þokkabót.  Eftir það var orkan alveg búinn.  Við röltum á hótelið, það tók að rökkva og kvölda.

Þar sem við vorum á 16.hæð, skartaði borgin sínu fegursta.  En það skrítna var að við fengum heimþrá.  Söknuðum barnanna og langaði bara heim.  Þetta hljómar furðulega svona á skjánum en þarna var þreytan orðin öllu öðru sterkara. 

Eftir nætursvefn vöknuðum við með allt annað viðhorf. Sól og 30 stiga hiti.  Við fórum í morgunmat og þaðan á ströndina.  Áttum frábæran dag, bara tvö í Alicante.  Um kvöldið komu svo kórfélagar og makar til Alicente og við tókum á móti þeim á flugvellinum.

 Daginn eftir var keyrt í rútu til Barcelona. Þar vorum við í tvo daga á frábæru hóteli með sundlaug á þakinu þar sem hægt var að slappa af í sólinni. Barcelona er mikil og lífleg borg.

Svo var kominn laugardagur, 2. júní.  Þá var farið um borð í Voyager of seas. - Þegar þarna er komið við sögu vorum við agndofa. Þetta skip er fljótandi ævintýraheimur.

Og dagarnir um borð voru nokkurn veginn svona: Fara á fætur, í morgunmat.  Á meðan við vorum í morgunmat þá var herbergið gert fínt.  Svo var farið ýmist í land eða legið í sólbaði.  Svo var fengið sér að borða í matsalnum sem hafði opið hlaðborð á milli 12:00 & 17:00.  Um kvöldið var matur kl. 19:00. Alltaf sama borðið með sömu borðfélugunum. Við vorum sex við borðið og höfðum fjóra þjóna.  Þeir snérust í kringum okkur og á meðan við borðuðum, með útsýni yfir Miðjarðarhafið, þá var herbergisþjónninn okkar að taka til öðru sinni í herberginu okkar.

 Það var einn dagur sem var frábrugðin en það varð þriðjudagurinn. Þá fórum við í skoðunnarferð til Rómar. Það var mikil ferð um borgina, sáum hringleikahúsið og fórum svo í Vatíkanið.

En siglingin var ævintýri líkust. Þjónustan frábær og viðmótið var stórkostlegt. Íburður mikill en þetta er nýlegt skip og þriðja stærsta skip heims, hvorki meira né minna. Ég mun setja inn myndir fljótlega úr skipinu og ferðinni. Á eftir að flokka einhverjar 600-700 myndir.

Heimferðin var frekar erfið. Vöknuðum kl.fjögur að íslenskum tíma og yfirgáfum skipið.  Vorum svo í Barcelona á vergangi allan daginn en það var ótrúlega auðvelt og ánægjulegt.  Vorum lent kl. hálf fjögur um nóttina að íslenskum tíma í Keflavík.  Við Hulda vorum með “pickup” og gistingu þar. Lögðumst á koddann kl.hálf fimm á gistiheimilinu, þá búin að vaka í rúman sólarhring. Keyrðum svo til Akureyrar á sunnudag.

Það hefur aldrei, þá meina ég aldrei verið svona gott að koma heim.  Eftir ánægjulega ferð er ég þreyttur en glaður, sumarið komið á Íslandi og ég fer aftur í frí í lok júlí. Það er sannarlega frábært að hafa tækifæri að ferðast til útlanda en Ísland, gamla Ísland – ástkær fósturjörð.....

 Heima er best en mig vantar svona einkaþjón eins og ég hafði á skipinu. Auglýsi eftir einum fyrir lítið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband