Að þekkja sjálfan sig
24.9.2006 | 14:39
Einhvern tímann heyrði ég þá speki að sá sem þekkti aðra væri lífsreyndur en sá sem þekkti sjálfan sig væri spekingur. Ég hef löngum talist vera fremur lífsreyndur en spekingur.
Fyrir mörgum, mörgum árum sá ég einhverja útgáfu af Don Kíkóti. Þetta er ein af þessum sögum sem mér fannst bull en sá síðar um hvað hún er í raun og veru.
Það eru ótrúlega margir sem glíma við vindmyllur dags daglega í stað þess að ganga yfir hindrunarlausan akurinn. Við gerum okkur lífið oft ótrúlega erfitt. Og hingað til verður að segjast að þarna er ég hreinlega í sérflokki, hvað þetta varðar. Hulda hefur oft bent mér á að ég sé eins og áðurnefndur Don Kíkóti, sífellt að berjast við eitthvað sem er ekki til.
En þá komum við aftur að þessu sem ég talaði um í upphafi; að þekkja sjálfan sig.
Þið, kæru bloggvinir, hafið ekki farið varhluta af stormviðri lífsins hjá mér síðasta árið. En það kennir manni og svei mér þá, ég er farinn að hlaupa fram hjá einni og einni vindmyllu án þess að berjast við hana.
Ég skil þó stundum ekki hvað ég get verið klikkaður og bjartsýnn að taka hitt og þetta að mér. Síðast í gærkvöldi stóð ég frammi fyrir þessu. Mér fannst ég vera búinn að taka að mér eitthvað sem var meira en ég treysti mér í. Þetta er ég svo oft að gera. Tek að mér eitthvað sem er ekkert mál í fyrstu en verður mér nánast ofviða þegar á hólminn er komið.
Fyrir ekki alls löngu fór þetta oft í taugarnar á mér en núna er ég að sjá, að þetta þroskar mann. Í bókinni sem ég hef vitnað í: "Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn" er talað um þetta. Þar segir að þú þroskist við að reyna að gera eitthvað sem þér finnst erfitt. Og það hef ég gert og það færir mann nær sjálfum sér. Vissulega þykir manni ekkert spennandi, á meðan á því stendur, að standa frammi fyrir vandamálum eða einhverju sem er erfitt og maður óttast.
En mundu næst þegar þú stendur frammi fyrir þessu, þá ertu að þroska sjálfa/n þig og kemur sterkari persóna út úr þessu.
Og svo þarf lífið að vera svolítið skemmtilegt og þá sannast það sem sagt er:
"No pain-no game"
Athugasemdir
Mjög góð speki í byrjun viku:) og eitt enn: Það sem drepur þig ekki herðir þig bara;)
Inga Björk Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 25.9.2006 kl. 11:33
Já Inga, hárrétt hjá þér. Takk fyrir þetta.
Péturg (IP-tala skráð) 25.9.2006 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.