Valentínusardagurinn

Hæ.

Í dag er Valentínusardagurinn.  Mörgum finnst þetta amerískt fyrirbæri en ég komst nýlega að því að svo er ekki.

Á síðunni; www.hvaderimatinn.is er að finna þennan fróðleiksmola:

Það er mjög útbreiddur misskilningur að Valentínusardagurinn sé bandarískur siður. Þeir hafa hins vegar verið nokkuð duglegir að tileinka sér hann. Dagur elskenda er ævaforn rómverskur siður sem hefur farið víða um hinn kristna heim.

Á 3. öld eftir Krist var Claudius II keisari í Róm. Hann uppgötvaði að einstæðir karlmenn væru miklu betri hermenn en hinir giftu og bannaði því hjónabönd í kjölfarið. Elskendur grétu þetta eðlilega og Valentínus nokkur sem þá var prestur í Róm tók það að sér að gifta ung pör í laumi. Þetta gékk svona í þó nokkurn tíma þar til upp komst og Valentínus var fangelsaður og líflátinn.

Til eru ýmsar útgáfur af því hvað nákvæmlega gerðist og ein sagan segir að Valentínus sjálfur hafi sent fyrstu Valentínusarkveðjuna. Dóttir eins fangavarðar hans á að hafa heillað hann svo að þau hittust töluvert í fangelsinu áður en hann var líflátinn. Á síðustu dögunum skrifaði hann henni svo ástarbréf og ritaði undir: "Frá þínum Valentínus" eða eins og enn í dag er notað í hinum enskumælandi heimi: "From your Valentine".

Sjálfsagt hafa margir kastað kveðju á elskuna sína í gegn um aldirnar en fyrsta ritaða Valentínusarkveðjan sem vitað er um var skrifuð í öðru fangelsi, Tower of London, árið 1415. Það var svo um miðbik 17. aldar að siðurinn komst á í Evrópu meðal almennings. 100 árum síðar var það orðin tiltekin venja að skiptast á gjöfum og fyrstu prentuðu Valentínusarkortin litu dagsins ljós í lok 18. aldar. Nú á okkar tímum eru send um milljarður Valentínusarkorta árlega og til samanburðar þá eru send um 2,6 milljarðar jólakorta ár hvert.

 

Nú er bara að vera góð við hvert annað í dag.

happy-valentines-day-002

 


Búum til minningar......

Sæl og gleðilegan miðvikudag.

 Svo við byrjum nú á veðrinu. Það er fínt veður á Akureyri í dag, frost, logn og heiðskýrt.  Í dag hleyp ég með Dagskrána á milli húsa ásamt Fanneyju og þá er frostið betra en hlákan, því það er svell úti um allt. 

 

Í gærkvöldi sat ég yfir myndaalbúmum.  Þetta var rétt eins og tímavél, spólað til baka um allt að 15 ár.  Og þarna sat ég yfir tíu albúmum og skoðaði atburði stórfjölskyldunnar.  Þetta eru albúm sem mamma og pabbi eiga en mamma er nú ansi duglegur myndasmiður og henni að þakka að þessar stundir hafi varðveist á pappír.

Ég verð að segja að tilfinningasveiflan var talsvert mikil þegar ég skoðaði þetta.  Margar skemmtilegar samverustundir hjá okkur systkinum ásamt fjölskyldum og mömmu og pabba, börnin mín á ýmsum aldri en þau eru nú að verða fullorðin og hefur maður nú hálf blendnar tilfinningar gagnvart því.  Og svo sér maður að maður verður sjálfur ekki ungur að eilífu og aldur hefur læðst yfir eins og galdur, síðustu ár. 

En ég get líka sagt að þegar þessar minningar birtast mér á ljósmyndapappír, svo sterkar og ljóslifandi, þá get ég verið ánægður, sannarlega.

Það er þó eitt sem ég velti fyrir mér, svona í þessum þankagangi um liðna tíma. Það er sú spurning hvort maður sjái meira eftir því sem maður gerði eða því sem maður gerði ekki???  Auðvitað erfitt að svara því.

Það sem kom líka upp í huga minn við að skoða þetta var gamla tuggan að njóta lífsins, því tíminn líður hratt og hver sekúnda sem líður, kemur aldrei aftur.................

 

meira vesen

Ég að vesenast, sennirlega í kringum 1978. Pabbi fórnarlamb í veseninu.


Hit by a bus

Hæ.

Það er grámyglulet andlit sem Akureyri setur upp í dag. Hérna í vinnunni er frekar svalt á okkur, því hitastigið inni helgast meira og minna af hitastiginu úti.

Annars líða dagar frekar hratt um þessar mundir. Ég hef bloggað um það áður að líf mitt er stundum eins og í Ground houg day, myndinni. Datt þetta nú í hug þegar ég sá að þessi dagur var nýlega í BNA. 

En það þarf ekki að vera slæmt.

Við hjónin(eins og Óli Gríms forseti segir) höfum unnið að lífstílsbreytingu.  Erum í átaki í Átaki og gengur vel. So far, so good, so what? Kemur í ljós.

Í gær varð ég þó fyrir frekar óskemmtilegri reynslu.  Ég var að skreppa aðeins úr vinnunni og er að keyra út á Glerárgötu, frá bílaplaninu hér hjá Ásprent. Fyrir framan mig var smábíll, sem sá ekki að það var rautt ljós. Viðkomandi keyrir út á götuna en yfir á grænu ljósi kemur hins vegar eitt stykki strætisvagn og dúndrar framan á brettið á litla bílnum sem snérist og kastaðist til. Ég- sat þarna og horfði á.....og brá.

Fyrstu viðbrögð mín voru að gera ekki neitt. Sat frosinn í bílnum í nokkrar sek. en spratt svo út til að sjá hvort einhver væri slasaður.  Inni í bílnum var ung stelpa, sem varla hefur lokið ári í umferðinni og hún kom varla upp orði.  Ég var ekki með síma á mér og því tók ég símann af henni og hringdi í 112...

Eftir samtal við neyðarlínu komust við að því að láta lögreglu mæta og meta ástand hennar.  Strætóbílstjórinn meiddist ekki og enginn þar heldur.

 

Það er nú einu sinni þannig að þegar lífið gengur sinn vanagang og jafnvel í heljargreipum hversdagsins, þá eigum við að horfa á það jákvæðum augum, því þá er allt eins og það á að vera.


Heimaslóðin

Sælt veri fólkið.

Það hefur lítið verið kveikt á skaparanum síðustu daga. Mér dettur ekkert í hug að skrifa og er svo ofsalega tómur. Vona að gáttirnar opnist fljótlega.

Sá að Haukur var að spurja hvort ég ætlaði ekki að uppfæra og mátti því til með að henda einu bloggi á síðuna.  Núna þegar bærinn okkar, Akureyri er umvafinn frosti og snjó, er gaman að skoða myndir frá hinum ýmsu tímum.

Ég fór inn á síðuna, www.akureyri.is. Þar er að finna ótrúlega skemmtilegar og fallegar myndir frá Akureyri síðustu ár.  Tek mér það bessaleyfi að birta þessar myndir hér.

 

Akureyri_6des05_8Akureyri_hrafnar_nov05_2Borgarisjaki_mai05Fullt_tunglSolarlag270605Glerakirkja_2007Nonni_okt06Nordurljos_JohanHolst


Allt tómt

Sælt veri fólkið.

Vil byrja á því að óska Ingu Björk, Einari og öllum öðrum í fjölskyldunni til hamingju með litlu prinsessuna sem fæddist 17. janúar. Ég hef ekki séð hana ennþá en vonandi styttist í það.

- Þetta er annars hálf rólegur árstími. Það er nú bara svoleiðis að ég er hálf tómur til skrifa og hef ekkert að segja, nema kannski Áfram ÍslandWink

 


Just another day

Hæ hó.

Það má segja að titill þessa lags með Paul McCartney eigi vel við þessa dagana, þar sem hver dagurinn á fætur öðrum er umvafinn hversdagsleikanum.

Ég reyni að nýta mér þennan tíma til að hafa það rólegt, ná andlegu jafnvægi og hvíla mig.  Árið er nefninlega að mörgu leiti eins og grískur dans, fer rólega af stað en svo færist fjör í leikinn þegar líður á.

Við Hulda vorum að velta fyrir okkur í gærkvöldi hvernig árstíðirnar fara í okkur.  Við vorum sammála um að þetta væri að mörgu leiti góður árstími í rólegheitunum.  Ég eiginlega komst að því að álit mitt á árstíðunum hefur breyst dálítið.  Áður var sumarið tíminn en það hefur breyst.  Mér finnst sumarið oft svo kappsfullt, órólegt og tætingslegt.  Þetta getur nú líka litast af því að við erum bæði í innivinnu og í fyrrasumar fannst mér alltaf vera svo gott veður út um gluggann en svo þegar maður var búinn að vinna, þá var skítkallt.   En vissulega eru bjartar sumarnætur töfrum líkastar og fuglasöngur og allt það alveg dásemlegt.

Nóg um sumarið í bili. Nú er frost og snjór, Þorrinn ekki byrjaður en styttist í það.  Aðal málið er að hver árstími, hver dagur á að vera sérstakur og skemmtilegur.  

Hafið það gott og eigið góðan dag.

 


Þréttándin, jólin og afmæli

Sæl verið þið og gleðilegt ár.

 Þá er komið nýtt ár og jólin búin. Ég sat í gærkvöldi við jólatréð og hugsaði um jólin. Þetta hafa verið yndisleg jól og ánægjuleg í flesta staði og er ég þakklátur fyrir það.

Nú er framundan nýtt ár og ný tækifæri. Árið byrjar nokkuð líflega og engin lognmolla eins og oft er í janúar.

Í gær, 6. janúar áttu Haukur og Hákon afmæli, til hamingju með það.  Veit ekki hvenær Haukur nær að sjá þetta, hann er á flakki um heiminn eins og oft áður.

Hafið það gott og haldið áramótaheitum.

 


Áramót

Komið þið sæl.

Jæja, þá eru aðeins nokkrar klukkustundir eftir á þessu ári 2007 sem hefur verið viðburðarríkt, stundum hefur maður sigrað, stundum tapað, það hefur verið gleði það hafa verið sorgir.

Ég gaf mér svolítinn tíma í gærkvöldi að fara yfir árið.

Sorgin hefur bankað upp á og þegar ég horfi til baka þá er andlát Herdísar ofarlega í mínum huga.  Við þurftum þá að takast á við eitthvað sem við höfum, sem betur fer, ekki þurft að gera mikið af og þetta minnir okkur á, að lífið getur tekið algjöra u-beygju á nokkrum mínútum.

Af einstökum viðburðum á árinu hjá mér má nefna "ekki-atburð" þ.e.a.s. að ég skipti ekki um vinnu á árinu. Nú fer ég bráðum að vera búinn að vera tvö ár í þessu starfi. 

Ég fór í frekar misheppnað ferðalag á árinu, reyndar byrjaði það vel en svo fór veðrið með okkur, 25 m/s og allt á floti alls staðar.

Vel heppnað ferðalag var þó siglingin í vor, þar sem við sigldum á 5 störnu hóteli um Miðjarðarhafið.

Ég get ekki annað en nefnt sigra á árinu.  Það má segja að tilviljun hafi ráðið því að við félagar fórum að spila saman á diskóteki og úr varð þríeykið N3.  Þetta hefur undið upp á sig og vaxið, svona næstum þvi, alveg óvart í höndunum okkur og við erum rétt að byrja því þetta stækkar og stækkar.

Á árinu lét ég gamlan draum rætast og keypti mér lítið heima-stúdíó. Þetta var eitthvað sem ég stökk bara á og kunni lítið á tækin þegar ég fékk þau.  En síðan í september hef ég þó afrekað að gera eitt lag, þó með góðri aðstoð frá fleirum, gert eina útvarpsauglýsingu og eina útvarpsdagskrá.  Á næsta ári sé ég fyrir mér fleiri verkefni.

Það sem þó stendur upp úr á árinu er þakklæti.  Það þakklæti snýr að börnunum mínum.  Síðustu 18 árin hef ég verið stoltur og ánægður með barn eða börn en þetta er ofarlega í mínum huga núna.  Kannski er maður þakklátur eftir að hafa kynnst sorginni. Þó er ástæðan líka sú að þau hafa sýnt meira af sér sem einstaklingar núna síðasta árið.  Ég er stoltur af þeim og finnst ég ekki getað annað en sagt stórt TAKK fyrir það. 

Þetta er það sem ég get sagt um árið 2007. 

Margt mætti betur fara fyrir næsta ár og auðvitað mættu samskipti stórfjölskyldunnar vera betri en ég hugsa til þess með hlýhug að svo megi verða. 

 Að lokum sendi ég ykkur heillaóskir um gleðirík áramót og gott næsta ár.  Það geri ég með þessari vísu:

Við áramót minning oft verður sár,

sem kallar þó einnig fram gleðinnar tár.

Megi gleði og hlýja

á árinu nýja,

þig umvefja og segi: gleðilegt ár. 

Flugeldar-twilight-01

 


Hátíðarskap

Komið þið sæl og blessuð.

Eruð þið ekki í hátíðarskapi?

Lífið hefur einkennst af þessu:  Borða, sofa, borða, lesa, borða, spila, borða, horfa á sjónvarp, borða, borða..........Pinch  Nei, ég segi svona. Hátíðarskapið er á sínum stað, hátíðarskvapið líka.

Er í vinnunni núna en það er frekar rólegt yfir öllu. Hugsa að ég reyni að sleppa bara um hádegi. Annars var ég ansi syfjaður í morgun, við vorum að spila fram á nótt, sem er bara gaman.

  Nú nálgast áramót og ég er alltaf í hálf annarlegu ástandi þegar áramótin nálgast, þó í nokkuð jákvæðum skilningi.

Því ætla ég að vera með áramótauppgjör á blogginu mínu á gamlársdag. Ég vona að þið eigið eftir að kíkja þá.

Heyrumst.


Gleðileg jól

Þar sem ég er á fullu eins og er við eldamennskuna þá ætla ég rétt svo að kasta lítilli jólakveðju hérna á bloggið. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Megi þið hafa það sem allra best yfir hátíðirnar og sjáumst vonandi hress á komandi ári.

Gleðileg jól.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband