Bloggsíða fyrir ættarmót

Sæl verið þið.

Eins og flestir vita þá er ættarmót hjá afkomendum Laufeyjar ömmu og Þórðar afa í sumar.

Við höfum sett upp bloggsíðu í kringum ættarmótið. Slóðin er: www.n31.blogcentral.is

Heyrumst.

 


Jæja....

...já.

Hef lítið látið heyra frá mér að undanförnu.

Hendi þessari færslu inn til að segja að ég sé ekki hættur....blogga fljótlega.


..hvar ertu nú....?

Komið þið sæl og blessuð kæru vinir og allir aðrir í bloggheiminum.

Nú er apríl genginn í garð.  Ég hef ekki bloggið síðan 19. mars. Það er skemmst frá því að segja að ýmislegt hefur drifið á daga mína síðan þá.

Þetta helst:

Páskar gengu í garð, skírdagur afslöppun en svo kom föstudagurinn langi. Þá fór ég, ásamt Huldu og Ómari bróður hennar í píslagöngu í Mývatnssveitinni.  Einu sinni var sungið"Mývatnssveitin er æði" Ætli maður syngi ekki núna"Mývatnssveitin er (brjál)æði"....... Já, við gengum af göflunum; hringinn um vatnið eða 36 km. Það tók 9 stundir.  Þegar ég kom heim, gat ég varla staðið í fætur og skalf af ofreynslu.  Laugardagur fór svo í ballstand hjá N3 og páskadagur var afslöppun.

Þegar páskar höfðu lokið sér af var ég orðinn lasinn. Lá heima, vorkenndi sjálfum mér en þegar leið á vikuna, þá var komið að fermingarundirbúningi. Föstudagur, þá var ég búinn að taka mér frí og druslaðist af stað.  

Laugardagur 29. mars gekk í garð og það var komið að þessu; fermingardagur Fanneyjar. Allt gekk vel og yndislegur dagur.

Sunnudagur, var orðinn veikur aftur, sleginn niður. Er það enn Frown en á batavegi. Hef ekki orðið svona veikur í áraraðir og hef núna legið bráðum í hálfan mánuð og vorkennt sjálfum mér.

En sjúkdóma-og nefrennslissögur eru ekki skemmtilegar......nóg um það.

Framundan er vorið góða, þ.e.a.s. ef veðurguðurnir ætla að sleppa takinu á vetrinum.  Þá dettur mér í hug þessi vísa, sem vísar í vorið og ástandið í þjóðfélaginu, þar sem allt er að fara til fjandans......

Vorið góða grænt og hlýtt,

græðir fjör um dalinn.

Allt er komið á kók og spítt,

kýrnar jafnt sem smalinn. 

(Tekið úr leikritinu Erling)

En það er ýmislegt spennandi framundan hjá mér, svona þegar ég næ að standa á fætur en það verður nú fjótlega.

góðar stundir....... 

 


Páskar

 Hæ og takk fyrir að kvitta allir saman.  Bara svo þið vitið, þá hlýnar mér mikið um hjartarætur þegar ég sé komment frá ykkur

Þetta er skemmtileg umræða um Akureyri og athyglisverð pæling, hvort stressið yrði mikið meira ef okkur fjölgaði svona um helming?? Veit ekki en bærinn myndi lifna við, það er ljóst.  En annars finnst mér AKureyri góður bær, þess vegna bý ég nú hér.  Þetta snýr aðeins að bröltinu í manni, gagnvart afþreyingariðnaðinum.....það er stundum erfitt hérna.

En það eru að koma páskar. gott fólk. Ég hlakka mikið til að komast í frí, reyndar verð ég eitthvað að vinna um páskana.

Svo vil ég óska Laufeyju til hamingju með gærdaginn...náði reyndar að hitta hana í mýflugumynd í gær.  Laufey; það styttist í þrefalt stórfafmæli í feb-mars & apríl-Erum við ekki að tala um heljarinnar veislu í Las vegas?  Happy

Hafið það gott og gleðilega páska....


Hvurslags........

Hæ hó.

Hvernig er þetta mað kallinn?? Hættur að blogga??

Það er nú eiginlega alveg synd því ég var kominn með bloggsíðuna svo líflega á tímabili en svo dettur allt niður þegar það kemur ekki ný færsla lengi. En svona er þetta, það er ekki hægt að gera allt.

Það er annars mikið að gera hjá mér núna(eins og kannski stundum áður) enda væri nú lífið ekkert skemmtilegt í einhverri lognmollu.

Það er t.d. mikið að gerast hjá mér varðandi N3. Fyrir þá sem ekki vita þá er N3 plötusnúðaþríeyki sem hefur heldur betur verið að gera sig.  Næsta djamm hjá okkur er um páskana og gerum við ráð fyrir góðu balli.

Þessi helgi hefur verið lífleg.  Á föstudag fórum við í leikhús, ég, Hulda og Fanney. Sáum Fló á skinni og skemmst frá því að segja, snilld. 

Í gærkvöldi fórum við Hulda ásamt kórnum á Öngulsstaði að borða og svo að sjá Þið munið hann Jörund í Freyvangi.  Mér fannst það ágætt, alls ekki meira en það.  Leit aðeins of oft á klukkuna, sem segir að þetta stykki er allt of langt, eiginlega heilum klukkutíma.

Nú heilsar bjartur og fallegur dagur á Akureyri. Við löbbuðum um 20 km. í gær, ég Hulda og Ómar bróðir hennar.  Samtals um fjórir klukkutímar í göngutúr.  Hressandi og við stefnum á klukkutíma göngu í dag, ég og Hulda.

Svo er stutt vinnuvika framundan, páskar og ferming hjá Fanneyjar á næsta leiti.

Hafið það sem allra best og kvitta, takk. 


Lífið-notkunarreglur

Hæ.

Þessi titill á leikriti eftir Þorvald Þorsteinsson er verulega stór og djúpur.

Hugsið ykkur ef við fengum nú bækling frá æðri máttarvöldum þegar við fæðumst sem segir okkur hvernig við eigum að lifa lífinu Errm

Læra, vinna, læra meira, vera siðprúð, ekki of mikið, ekki of lítið, réttar ákvarðanir, græða, ekki missa sig í græðgi, ekki vinna of mikið, ekki of lítið, hreyfa sig, ekki of feit, ekki of mjó, hugsa, njóta, framkvæma, vantar þetta, vantar hitt, nægjusemi.....

Hvað viltu vera: Bóhem - Forstjóri.Shocking

Líklega má segja að það sé vandlifað í þessum heimi þegar við skoðum fréttir vikunnar.  Þá er ég að tala um Friðrik Ómar félaga minn sem hefur lengi stefnt að því að komast í Eurovision.  Og nú þegar það er í höfn, snýst málið meira um þau orð sem hann lét falla.  Ég ætla nú ekki að tala of mikið um þetta því nóg er komið en það er ljóst að við gætum sett það í lífsins notkunarreglur að "Fæst orð bera minnsta ábyrgð" og "Aðgát skal höfð í nærveru sálar".

Ég las einhvern tímann viðtal við Einar Braga rithöfund.  Sennilega hafa orð hans náð mér því mér fannst þetta vera vitur maður enda ekkert unglamb þar á ferð.  Hann sagði að maður vissi ekkert fyrir þrítugt.  Stór orð auðvitað og sennilega hef ég vitnað í þetta áður á blogginu.  Hins vegar lærir maður af reynslunni og oft verða slæmu hlutirnir í reynslubankann og kenna manni meira.

- Hvað sem öllu líður í notkunarreglum lífsins og mínum vangaveltum gagnvart lífinum mínu sem stundum er flókið, þá er líðandi stund aðal málið.  Hver sekúnda kemur aldrei aftur.

Og þar sem ég vitna hér að ofan í tvö skáld, þá vil ég enda á orðum þriðja stórskáldsins.  Þetta er uppáhalds setningin mín og hef ég margoft vitnað í hana enda reynt að nota mér  hana á leið minni í gegnum lífið í passlegu kæruleysi.

"Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer alt einhvern veginn, þó margur efist um þá á tímabili". - Halldór Killjan Laxnes

Hafið það gott og góða helgi....og til hamingju með bjórdaginn W00t


Blessað bloggið

Komið þið sæl.

Veturinn er, erfiður mér, svo andskoti fótkaldur stundum.

Já, ekki er nú laust við að veturinn fari smá í tauaarnar á mér.  Og af hverju býrðu þá á Íslandi, góurinn?  Það er spurning.

Mig langar aðeins að tala um blessað bloggið.  Heyrði aðeins um kærumál í bloggsamfélaginu í gær.  Ég fór að hugsa um það hvernig margir nota þennan miðil.  Sumir skrifa ekki undir nafni og eru að hrauna yfir mann og annann....Aðrir skrifa undir nafni en hrauna líka yfir mann og annann.  Það er auðvitað skárra en samt hef ég helst ekki viljað vera með persónulegar yfirlýsingar á einhvern.  Mig langar til dæmis að skrifa núna um ákveðinn mann sem er áberandi í Þjóðfélaginu en sleppi því.  Ef ég ætla að skrifa eitthvað um einhvern, og þá aðallega eitthvað slæmt, þá myndi ég vilja láta viðkomandi vita, því hann á rétt á að svara fyrir sig.

Annars hef ég verið hálf vængbrotinn þessa vikuna. Hulda verið í London að skoða málaskóla.  En hún kemur í kvöld og ætla ég suður til að taka á móti henni og við fljúgum saman heim í fyrramálið.  Fer suður í hádeginu í dag.  Á smá erindi sem ég segi ykkur frá síðar en líka aðeins að skipta um umhverfi. Held að ég sé að grotna niður hérnaPinch

Jæja, verð að fara að gera eitthvað í vinnunni....þessu vinna slítur algjörlega daginn í sundur Joyful

 


Til hamingju Ísland...

...með að velja frábæra fulltrúa til þess að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision.

Já, kooomiðði sæl og blessuð Joyful

Það er ekki laust við að nú sé maður ánægður enda loksins komið að þvi að Friðrik Ómar fari í Eurovision.  Svo ég segi nú alveg eins og er, þá var ég nokkuð vongóður um að þetta færi svona en óttaðist ofurplögg Valla sport gagnvart Mercedes club.  En máltækið "glymur hæst í tómri tunnu" á líklega afskaplega vel við þarna og innstæðan var nú heldur lítil.  En þetta var sniðugt hjá þessum hóp steratrölla og mjónunnar en EINI gallinn var sá að tónlistarkunnáttan þeirra var engin Crying   Ætli það verði ekki að teljast pínu óheppilegt  Shocking

En ég er sannfærður um að Eurobandið á eftir að gera góða hluti og leyfi ég mér að spá þeim velgengni í aðalkeppninni í maí.  Við eigum eftir að taka þátt í úrslitakvöldinu og við lendum einhvers staðar í kringum topp tíu.  

Nú er bara að sjá hversu sannspár ég er  Halo


Eurovision

Hæ.

Það er óhætt að segja að tíminn líði hratt.  Nú er enn einu sinni að koma helgi.....eigum við að ræða það eitthvað????? GetLost

Af tilraun minni gagnvart því að vera jákvæður er gott að frétta.  Mikið óskaplega gengur allt mikið betur. Ég brosi þegar ég fer á fætur, þó undir niðri sé nú smá mygla.....Pinch þá ýti ég því út í horn og brosi Smile

Um næstu helgi er úrslitakvöldið í Eurovision hérna heima.....eða nema að Þórhalli hjá Rúv detti eitthvað annað í hug síðar en amk hef ég ekki heyrt það.

Eins og tvö síðust ár er Friðrik Ómar, stolt okkar norðlendingu, sómi sverð og skjöldur, að keppa.  Ég hef haldið uppi áróðri um að kjósa strákinn og geri það einu sinni enn.  Auðvitað verða allir að kjósa eftir sinni sannfæringu um besta lagið en ég lofa því að þarna eru flytjendur, hann og Regína Ósk, sem eru verðugir fulltrúar í keppninni.

Til gamans birti ég mynd af stjörnunni frá Dalvík fyrir nokkrum árum og nokkrum kílóum síðan.

New Image Frá sýningu á Broadway...og nýbúið að finna upp endurskinsmerkið.


Lofa skal dag að morgni

Hæ.

Þá er sæll sunnudagur runninn upp. Ég hef verið veikur í síðustu viku og mikið var það nú annars gott.......hljómar ekki beinlínis vel en það sem ég meina er að núna þegar ég er kominn yfir það, þá finn ég hvað ég þurfti á því að halda að hvíla mig.

En, í dag langar mig að tala um viðmót okkar til líðandi stundar og hvernig við göngum inn í daginn, í hinu daglega lífi.

Þó mörgum finnist sjónvarpsgláp lítt uppbyggjandi þá fór ég að hugsa um þetta í gær, þar sem ég horfði á mynd en þar er ein sögupersónan alltaf í góðu skapi, brosir framan í lífið og tekur hlutunum passlega alvarlega. 

Er það ekki stóri galdurinn í lífinu, að brosa framan í lífið og vera jákvæður gagnvart flestu.  Þetta verður okkur flestum tíðrætt um en gerum jafnvel ekkert í.  Það er eins og að vera með uppskrift af auðveldri og góðri köku en taka alltaf flóknu uppskriftina og búa til vonda köku. 

Skrítið Errm

Það er því miður staðreynd að flesta virka morgna sem ég vakna er ég frekar þungur.  Mér finnst ekkert að því að vakna, þannig séð, en ég hef svolítið þungan hug gagnvart því að fara í vinnuna.  Hulda er hins vegar oftast frekar jákvæð og segir alltaf þegar hún kveður mig: "Eigðu góðan dag".....  Og yfirleitt svara ég: "ummmmm-Angry- sömuleiðis" 

Ekki veit ég hvað veldur, nema kannski að einu sinni var Hulda ótrúlega morgunfúl en virðist hafa lagt þau álög á mig, því ég gerði svo mikið grín að henni Shocking

En nú er ég að hugsa, ef ég gerði nú eins og gaurinn í bíómyndinni og væri alltaf jákvæður, brosandi og kátur í eina viku til reynslu?  Vissulega er lífið ekki bíómynd en þetta er hægt upp að vissu marki.  Spurning að taka eina viku til reynslu því það er alveg ókeypis að b.r.o.s.a. Smile

Lofa skal dag að morgni og eigið góðan dag. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband