Færsluflokkur: Bloggar
Nóvember
1.11.2006 | 12:50
Halló halló
Nei Svavar, ég er nú ekki alveg svo þreyttur að ég sé hættur að blogga. En það var vel tekið á því í ferðinni, alveg ljómandi góð ferð.
Við fórum út á föstudagsmorguninn og komum heim á mánudagskvöldið. Fórum í beina fluginu frá Akureyri sem er bara algjör snilld. Írar eru nú skemmtilegt fólk sem gaman er að sækja heim. Þó fer Dublin ekki í flokk uppáhalds-borga hjá mér en ferðin var mjög góð. Við fórum m.a. á Írska krá með lifandi tónlist að hætti heimamanna. Það er óskaplega mikil gleði á skemmtistöðum þeirra og mun minna um læti, slagsmál og vesen en á Íslandi. Spurning hvort Friðrik Ómar félagi minn ætti að flytjast til Írlands og skemmta þar, svo hann þurfi ekki að vera bæði söngvari og útkastari(sjá Fréttablaðið í dag). Svo fórum við á krá í miðbænum sem var upphaflega kirkja. Ég fór sem sagt til altaris og dreypti af sannkölluðum guðaveigum þegar ég sat í stól þar sem altarið var áður staðsett. Skál fyrir því og allir í stuði með Guði:)
Þessa dagana er líf og fjör í vinnunni minni. Dagskráin er stór og mikil þessa dagana og fer stækkandi. Því má búast við ansi miklum önnum hjá mér sem er í sjálfu sér jákvætt. Því þó ég sé stundum að springa úr stressi, þá finnst mér ég vita hvað ég er að gera, sem er mjög gott. Og talandi um vinnuna mína. Ég hef ekki talað mikið um hana hér á blogginu. Taldi mig hafa fyllt kvótann í því í fyrra. En það er skemmst frá því að segja að ég er á réttri hillu og þó enginn viti sína ævi fyrr en öll er, þá gæti ég bara hreinlega ílengst hérna, ja svei mér þá :)
En í dag er kallt á Akureyri og það er kominn nóvember. Það er stutt í að mannlífið einkennist af jólaundirbúningi. Heima hjá mér er mikið tilstand fyrir jólin, eins og ég hef áður sagt. Og eins og mörg ykkar vita, þá reynum við að gera eitthvað nýtt og spennandi í kringum jólakortin frá okkur. Í fyrra fyrir jólin klippti ég saman myndband sem ég sendi til foreldra okkar Huldu í jólagjöf. Það var mjög mikil vinna en eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Ekki síst vegna þess að ég fékk mjög mikið þakklæti fyrir.
Jæja, verð að fara að gera eitthvað.
Yfir og út....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Til hamingju!!
26.10.2006 | 12:27
Sælt veri fólkið og takk fyrir kommentin.
Það er kominn 26.október. Í dag eiga pabbi minn og Svavar bróðir minn afmæli. Annar er eldri en hinn. Þið verðið að giska hvor. Innilega til hamingju með afmælin báðir tveir og njótið dagsins.
Það var svo fyrir sléttu ári síðan sem kisinn okkar kom inn á heimilið. Hann átti að vera læða og heita Jasmín en svo kom í ljós að þetta var högni og fékk nafnið Zorro. Við köllum hann reyndar nánast aldrei því nafni heldur bara Kisi. Hann hlýðir því nafni. Þetta var nú samt ekki beint góð afmælisgjöf handa honum föður mínum í fyrra, að vera koma með kattaróféti inn á heimilið. Það skemmtilega er að þeir eru bara ágætis vinir í dag
Á morgun förum við til Dublin. Við drekkum Jameson, við drekkum Jameson.......
Bæó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sérlundaður furðufugl
25.10.2006 | 08:20
"Þú varst sérlundaður furðufugl- og þú sast á stakri grein...."
Þessi orð eru frá meistara Megas. Þessi setning kom upp í huga minn í morgun þegar ég fór á fætur. Ég fór á fætur fyrir sjö í morgun, fór í sturtu, brasaði aðeins, setti í þvottavél og þ.h. Settist svo við eldhúsborðið með kaffibollann og hlusaði á tifið í klukkunni. Aleinn því aðrir heimilismeðlimir voru ekki vaknaðir. Og þá hugsaði ég með mér, morgunstund gefur gull í mund. Ég fór snemma að sofa í gærkvöldi og var í hinum mestu rólegheitum. Kveikti aldrei á sjónvarpi sem var dásamlegt. Krakkarnir úti og Hulda á æfingu með gólfélugum.
Í bókinni sem ég vitna mikið í; Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn, er mikið talað um mikilvægi þess að vakna snemma. Taka daginn snemma, byrja hann vel. Fyrstu tíu mínútur dagsins geta sagt mikið um hvernig dagurinn verður. Þetta er ég alltaf að sjá betur og betur. Ég sé líka betur og betur að eftir því sem sól lækkar á lofti, því hressari verð ég.....furðulegt.
En það snjóar á Akureyri í dag. Það er jólalegt. Enda fer alveg dásamlegur tími að fara í hönd. Og gott fólk, nú ætlum við Hulda að vera tímanlega að öllu...
Sénsinn!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur
23.10.2006 | 09:10
Halló.
Þá er helgin búin og kominn mánudagur. Þetta var hálf skrítin helgi en hún var fín. Við súperhjón tókum til í geymslunni OG háaloftinu. Þvílik aðgerð, maður lifandi. Það fóru þrír fullir fólksbílar af rusli upp á gáma. Svo á laugardagskvöldið var ég að spila á heilmiklu grímuballi.
Vetur konungur er kominn og líklega til að vera. Það var hálka í morgun sem segir manni að það sé tími kominn á naglana. Miðað við spána er ekki eftir neinu að bíða. Svo er aftur allt annað mál hvort hún stenst hjá þessum andskotum. Kemur í ljós.
Um næstu helgi verður Írafár hjá mér. Hulda ætlar að bjóða mér til Dublin-þessi elska. Ferðaskrifstofustaffið er sem sagt að fara. Við förum í beinu flugi frá Akureyri kl.09:00 á föstudagsmorgun og komun á mánudagskvöld. Hef aldrei komið til Írlands og hlakka nú bara til. Það verður líklega allavega einn Guiness og viskí í krukku.
En, aftur að alvörunni. Það er mánudagur, mikið að gera í vinnunni og ekki tími til að blogga meira í bili. Hafið það sem allra best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Spéhræðsla
19.10.2006 | 11:01
Það var talsvert kommentað á síðustu færslu mína. Takk fyrir það.
Og ég var hvattur til þess að fara meira út í þessa sálma á blogginu. Og þá velti ég því fyrir mér, hvort það að gera grín af sjálfum sér þyki almennt fyndið og skemmtilegt?
Þegar ég var lítill, þótti mér ákaflega vont að láta gera grín af mér. Ef einhver kom með meinlega athugasemd varð ég fúll. Og ef ég gerði mistök var ég ekki að bera þau á torg heldur hélt þeim fyrir mig.
Svo verður maður eldri og þroskast. Þá sér maður að þegar talað er um spéhræðslu tengist ekki bara nekt heldur hræðsla við að láta hlægja að sér. Enn í dag kemur fyrir að ég verð fúll ef einhver gerir grín að mér en sem betur fer get ég séð húmorinn í mistökum mínum, oftast.
Eitt af því sem hefur hjálpað mér að takast á við þetta er leiklistarnámskeið sem ég sótti sl.vetur. Þar var m.a. kennd trúðatækni sem byggist upp á því að vera svolítið háfvitalegur og láta hlægja að sér. Þetta er nefninlega kúnst því við tökum okkur allt of alvarlega.
Og nú gæti ég farið að segja ýmsar skemmtisögur af sjálfum mér, til dæmis hvað ratvísi mína varðar. Þegar ég villtist í Reykjavík, eða þegar ég villtist í Vestmannaeyjum nú eða þegar ég var með þrjá vistmenn á sambýli í bílnum hjá mér og var fastur á Akranesi. Ég fann ekki leiðina út úr bænum Ég er alveg hrikalega óratvís.
Maður er manns gaman. Að geta ekki séð húmorinn í sjálfum sér er hrikalega dapurlegt. Stundum er það samt þannig.
Næst þegar við klúðrum einhverjum hrikalega, þá skulum við reyna að brosa og hafa gaman af því
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hopsa bomm
17.10.2006 | 12:32
Halló!
Maður hættir líklega aldrei að koma sjálfum sér á óvart.
Þegar ég var sex ára gafst ég upp á skíðaíþróttinni. Pabbi lagði sig mikið fram við að kenna mér á skíði. Í minningunni fór hann margar ferðir í Hlíðarfjall með strák-ræfilinn til þess að nema þetta göfuga fjallasport. Og það er nú einhvernveginn þannig að sumt liggur fyrir okkur og annað ekki. Það var fljótlega mjög skýrt að Pétur Már Guðjónsson er enginn Ingimar Stenmark.....
En á tréskíðunum djöflaðist ég með fýlusvip. Ég vissi að þetta væru ekki mínar tvíbökur. Til marks um árangurinn held ég að þessi skíði hafi verið seld sem ónotuð eftir þennan vetur. Ástæðan: Skíðin stóðu meira upp í loft en niður. Sennilega hefði þurft að standa; notið niður við jörð.... Til þess að toppa þetta náði ljósmyndari Vikunnar mynd af stráknum, alveg á haus í einni brekkunni með þessum texta:"Æfingin skapar meistarann" Ég fór í fýlu og sagðist aldrei ætla að stíga á skíði aftur.
Núna sit ég við gluggann minn í vinnunni og horfi upp í Hlíðarfjall. Það er hvítt.
Síðustu tvö vetur hef ég unnið í Hlíðarfjalli, fyrst þótti mér það ekkert sérlega skemmtilegt en fínt í fyrra. Og núna horfi ég með söknuði þangað og langar upp í fjall. Ekki á skíði heldur eru frönsku karföflurnar þar, þær bestu í heimi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég er lifandi, lifandi-alveg .....
10.10.2006 | 10:08
Hæ hó.
Stutt blogg á þriðjudegi. Ég er ekki búinn að fá áfallhjálp ennþá eftir orminn sem ég taldi vera í fisknum mínum. Eftir nánari umhugsun dettur mér í hug að hann hafi verið í hveitinu Oj!! Hér eftir mun ég sigta hveitið mitt, svona til að vera viss.
Átti notalega helgi..við Hulda fórum í sumarbústað austur fyrir fjall. Kom endurnærður til baka.
svo er ég að vinna um næstu helgi. Það er nóg framundan og ég kemst ekki yfir allt sem ég er beðinn um.
Skrifa fljótlega eitthvað spekingslegt. Takk fyrir að kommenta
Ps: Er alveg að fara að byrja í ræktinni.....Guðbjartur, við byrjum á morgun er það ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hjálp-mig vantar áfallaHjálp!!!!!
5.10.2006 | 14:17
Það er miðvikdagur.....laufin falla og veðrið er kalt en stillt. Það er haust.
Inni í húsi, ofarlega í þorpinu stendur þéttholda maður í eldhúsinu sínu og eldar matinn. Hann er hálf þreyttur því hann hefur nýlokið við að koma út vikulegu útgafuverkefni sínu. Í eldhúsinu er nú stefnt að gourmet-kvöldmat þar sem síðustu dagana hefur léttmetið orðið fyrir valinu í kvöldmatinn.
Afkvæmin eru ekki spennt fyrir kvöldmatnum. Þau mótmæla en verður ekki ágengt.
Þéttholda maðurinn hanterar hráefni kvöldsins sem að þessu sinni er sjáfarfang. Hann hefur sett upp kartöflur og þær eru að verða soðnar. Þar sem vanda skal verkið, er fisknum nú veltu upp úr eggjahræru. Því næst er honum velt upp úr hveiti, aftur upp úr eggjahræru og aftur upp úr hveiti. Þetta er svo kryddað af mikilli kúnst.
Þetta lítur vel út. Þéttholda maðurinn tekur fullsteiktan fiskinn af pönnunni og setur hann á fat, þar á eftir inn í ofn. Því næst tekur hann síðasta stykkið, sem hafði verið velt upp úr egg>hveiti>egg>hveiti, og skellir því á pönnuna. Því næst fer hann á staðinn sem hann er oft við, eldhúsvaskinn og vaskar upp eftir sig.
Þegar þarna er komið við sögu er kominn tími til þess að snúa þessa síðasta fiskstykki á hina hliðina og fara að kalla:MATUR! En þá gerist það.......Hveitið lifnar við???? Það dansar!! Og svangi, duglegi, gourmet-þéttholda maðurinn horfir stórum augum á pönnuna, á fiskstykkið..........
Hva-djö-andsk.!!! Það er ormur sem sveiflar sér í fisknum mínum á pönnunni. Það er rétt eins og einver fakír sé með blokkflautuna og ormurinn liðast upp úr fisknum í gegnum hveitið. OOOJJ!
Hárin risu, höndin tók kipp og ormurinn datt úr fisknum og á pönnuna. Steiktur ormur. Maðurinn hljóp til konu sinnar í leit að áfallahjálp...
Þetta kvöld var þéttholda maðurinn með velgju og lagði af um 387 gr. Hann rétt gat borðað skyrdrykk sem ætlaði upp úr honum aftur.
Borðið þér orma frú Norma?......ef svo er, þá máttu eiga fiskinn minn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Afsakið meðan ég væli
2.10.2006 | 08:27
Góðan daginn gott fólk.
Ég má nú til með að taka geðvonskufærsluna frá því á fimmtudaginn í burtu. Viðbrögð við henni voru mikil og við ég þakka mikið vel fyrir góð ráð til mín.
Helgin að baki, mæti nú hálf þreyttur í dag(væl) En helgin var góð, aðeins að spila en annars rólegheit. Held að aldurinn sé farinn að færast yfir mig. Ég þrái rólegheit og frið, kyrrð og ró. Allt í einu leiðist mér hávaði, læti og öskrandi drukkið fólk. Í því ástandi er ekki gott að vera DJ. En þetta er nú sennilega tímabil sem gengur yfir, nema að ég sé að þroskast.....það skildi þó aldrei vera.
Framundan er ný vinnuvika sem byrjar með þoku á Akureyri. Best að vera glaður og brosa Þó gæti brugðið fyrir einhverju kvarti og kveini og þá segi ég bara:"Afsakið meðan ég væli".
Megi vikan verða ykkur góð og hafið það sem allra best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Varúð -Geðvonska!
28.9.2006 | 09:52
Æææjji
Ég vaknaði geðvondur í morgun. Veit ekki alveg af hverju og ég get lítið að því gert. Og þó!
Það eru sumir dagar erfiðari en aðrir...en eins og ég hef sagt hér á blogginu er þetta mest undir sjálfum okkur komið. Held að ég sé þessa stundina til dæmis að berjast við vindmyllurnar sem ég talaði nýlega um.
En það er ekkert að, ég er bara í fýlu og mátti til með að láta ykkur vita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)