Færsluflokkur: Bloggar
Takk
27.9.2006 | 19:49
Koomið þið sæl og blessuð.
Mér er efst í huga, á þessari stundu....... Nei, þetta er nú farið að hljóma eins og þakkarræða á Óskarnum. En gott fólk, mikið er ég þakklátur fyrir kommentin frá ykkur. Nú verð ég saddur eitthvað fram á næsta ár hvað það varðar.
Ég veit að ég get ekki gert kröfu á að fólk kommenti og skil vel að þið séuð ekki í stuði til þess. En einhvern veginn fannst mér að það væri allur kraftur dottinn úr síðunni. Svo þegar ég fékk kommentin frá ykkur þá kviknaði vonartýra í hjarta mínu. Gaman að fá komment héðan og þaðan, frá Borg Óttans(með stóru Ó-i) eða innan úr firði og út með firðinum. Takk kærlega fyrir.
Er hálf slappur í dag þar sem ég fór í sjúkraþjálfun í morgun. Bakið. Óttaðist mikið að ég fengi sama dóm og í fyrra þegar ég fór til hjartasérfræðings(af því að ég hélt að ég væri að deyja úr hjartaáfalli) og hann sagði að það væri sko ekkert að mér, ég væri bara of feitur. Sjúkraþjálfarinn sagði það EKKI í morgun en lét mig vita að hreyfing væri það eina sem gæti haldi mér frá bakverkjum. Hann skrattaðist mikið á skrokknum á mér, reyndar svo mikið að ég óttaðist að ég hlúnkaðist niður úr bekknum sem má muna fífil sinn fegri. En hann náði að losa mikið um og þetta er allt að koma.
Að lokum þetta:
Lífið er samspil árangurs og mistaka þú þarfnast hvors tveggja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta gengur nú ekki
26.9.2006 | 16:19
Hæ.
Mig langar að gera smá könnun hvort ástæðan fyrir því hversu fáir heimsækja og kommenta bloggið sé sú að fólki líkar ekki þessi síða.
Ég er búinn að stofna skoðanakönnun hér vinstra megin þar sem ég spyr, á ég að taka upp gamla bloggið aftur? Endilega svarið, þið getið varla annað en haft skoðun á því. ýta bara á "Já" eða "Nei"
Og koma svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Andstæður
25.9.2006 | 12:33
Við förum snemma í grunnskólanum að læra um andstæður. Heitt og kalt, stórt og lítið o.s.frv.
Ég vil meina að andstæður geti tengst öfgum. Mér finnst til dæmis best að klæðast annað hvort í svart eða hvítt, nú eða drekka sjóðheitt kaffi eða ískaldan bjór. Svo þekki ég einn, hann er reyndar talsvert skyldur mér, sem annað hvort borðar ekkert nammi eða heil ósköp af nammi.
Sennilega gerum við okkur ekki grein fyrir því hversu oft okkur tekst EKKI að rata hinn gullna meðalveg. Það er annað hvort í ökkla eða eyra.
En í ljósi þessa, velti ég því fyrir mér hvort Eyþór nokkur Arnalds, sem verið hefur í fréttum að undanförnum, bregðist við því að vera próflaus með því að gerast prófastur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að þekkja sjálfan sig
24.9.2006 | 14:39
Einhvern tímann heyrði ég þá speki að sá sem þekkti aðra væri lífsreyndur en sá sem þekkti sjálfan sig væri spekingur. Ég hef löngum talist vera fremur lífsreyndur en spekingur.
Fyrir mörgum, mörgum árum sá ég einhverja útgáfu af Don Kíkóti. Þetta er ein af þessum sögum sem mér fannst bull en sá síðar um hvað hún er í raun og veru.
Það eru ótrúlega margir sem glíma við vindmyllur dags daglega í stað þess að ganga yfir hindrunarlausan akurinn. Við gerum okkur lífið oft ótrúlega erfitt. Og hingað til verður að segjast að þarna er ég hreinlega í sérflokki, hvað þetta varðar. Hulda hefur oft bent mér á að ég sé eins og áðurnefndur Don Kíkóti, sífellt að berjast við eitthvað sem er ekki til.
En þá komum við aftur að þessu sem ég talaði um í upphafi; að þekkja sjálfan sig.
Þið, kæru bloggvinir, hafið ekki farið varhluta af stormviðri lífsins hjá mér síðasta árið. En það kennir manni og svei mér þá, ég er farinn að hlaupa fram hjá einni og einni vindmyllu án þess að berjast við hana.
Ég skil þó stundum ekki hvað ég get verið klikkaður og bjartsýnn að taka hitt og þetta að mér. Síðast í gærkvöldi stóð ég frammi fyrir þessu. Mér fannst ég vera búinn að taka að mér eitthvað sem var meira en ég treysti mér í. Þetta er ég svo oft að gera. Tek að mér eitthvað sem er ekkert mál í fyrstu en verður mér nánast ofviða þegar á hólminn er komið.
Fyrir ekki alls löngu fór þetta oft í taugarnar á mér en núna er ég að sjá, að þetta þroskar mann. Í bókinni sem ég hef vitnað í: "Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn" er talað um þetta. Þar segir að þú þroskist við að reyna að gera eitthvað sem þér finnst erfitt. Og það hef ég gert og það færir mann nær sjálfum sér. Vissulega þykir manni ekkert spennandi, á meðan á því stendur, að standa frammi fyrir vandamálum eða einhverju sem er erfitt og maður óttast.
En mundu næst þegar þú stendur frammi fyrir þessu, þá ertu að þroska sjálfa/n þig og kemur sterkari persóna út úr þessu.
Og svo þarf lífið að vera svolítið skemmtilegt og þá sannast það sem sagt er:
"No pain-no game"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um Hamingjuna
22.9.2006 | 09:32
Sælt verið fólkið á föstudegi.
Fékk sent á tölvupósti eftirfarandi speki. Lesið þetta elskurnar og drekkið þetta í ykkur:
Við teljum okkur trú um að lífið verði betra eftir að við: göngum í hjónaband, eignumst barn og síðan þegar við eignumst annað barn. Síðan verðum við ómöguleg yfir því að börnin eru enn svo ung og teljum að við verðum miklu ánægðari er þau eldast. Þegar það gerist verðum við pirruð á því að þurfa að takast á við unglingana okkar og teljum okkur verða ánægðari þegar þeir vaxa upp úr því aldursskeiði. Við teljum okkur trú um að við munum öðlast meiri lífsfyllingu loksins þegar: maki okkar tekur sig taki, þegar við fáum betri bíl, þegar við komumst í almennilegt frí eða þegar við setjumst í helgan stein. Sannleikurinn er sá að það er ekki til betri tími til að verða hamingjusamur heldur en einmitt núna Því ef ekki núna..... hvenær þá? Lífið er alltaf fullt af vandamálum. Það er best að horfast í augu við það og ákveða að vera hamingusamur þrátt fyrir það. Alfred D. Souza sagði eitt sinn: Lengi vel fannst mér alltaf sem lífið væri rétt að byrja þetta eina sanna líf. En það var alltaf eitthvað sem stóð í vegi fyrir því, eitthvað sem þurfti að yfirstíga fyrst, einhver ókláruð mál, tími sem þurfti að eyða í eitthvað, ógreiddar skuldir. Síðan myndi lífið byrja. Dag einn rann það upp fyrir mér að allar þessar hindranir voru lífið sjálft. Þetta viðhorf hjálpar okkur að skilja að það er engin leið að hamingjunni. Hamingjan er leiðin. Njótum hverrar stundar sem við eigum. Njótum hennar enn frekar þegar okkur tekst að deila henni með öðrum sem er nógu sérstakur til að verja tíma okkar með og munum, að tíminn bíður ekki eftir neinum. Hættu að bíða þar til þú hefur lokið námi eða þar til þú hefur hafið nám, þar til þú hefur misst fimm kíló eða bætt á þig fimm kílóum, þar til þú hefur eignast börn eða þar til þau flytjast að heiman, þar til þú byrjar að vinna eða þar til þú sest í helgan stein, þar til þú giftist eða þar til þú skilur, þar til á föstudagskvöld, þar til á sunnudagsmorgun, þar til þú færð þér nýjan bíl eða hús, þar til þú hefur borgað upp bílinn eða húsið, þar til í vor, þar til í sumar, þar til í haust, þar til í vetur, þar til lagið þitt byrjar, þar til þú ert búin að fá þér í glas, þar til runnið er af þér, þar til þú deyrð, þar til þú fæðist á ný til þess eins að ákveða að það er enginn tími betri til að vera hamingjusamur en einmitt núna! Hamingjan er ferðalag ekki áfangastaður.
Til umhugsunar að lokum! Sinntu starfi þínu eins og þú þarfnist ekki peninganna. Elskaðu eins og þú hafir aldrei verið særð(ur). Dansaðu eins og enginn sjái til þín
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Speki dagins 21/09
21.9.2006 | 09:56
Hæ aftur.
Næstu daga ætla ég að koma með eina speki á dag. Þetta er ekki komið úr mínum ranni, ég fann þetta einhvers staðar en þetta segir oft meira en mörg orð.
Látum skynsemina ráða um fortíðina, trúna þegar horft er fram á við og kærleikann í kringum okkur

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fréttir
21.9.2006 | 09:23
Sælt veri fólkið.
Mér finnst ágætt að segja annað slagið fréttir af okkur en ekki of oft svo bloggið verði ekki sjálfhverft.
Við erum að komast aftur af stað eftir fríið. Reyndar kom bakslag í allt þegar ég fór í bakinu!! Þetta er alveg furðulegt, hvað bakið á mér klikkar oft á haustin. Þetta fer bara að vera eins og réttirnar, gerist alltaf. En Hulda vill meina að ég sé keyri mig svo út á sumrin að þegar ég fari í frí, þá klikkar allt. Þegar við vorum út á Tenerife þá komu ýmsir smávægilegir kvillar hjá mér. Þá sagði Hulda einmitt að það þyrfti að senda mig og mömmu saman í frí, því það er alltaf einhver andskotinn að okkur í fríinu. Ég er semsasgt alveg rólfær þessa dagana, samt alltaf með verki en er á leið til sjúkraþjálfara.
Núna er frekar róleg tíð í vinnunni hjá mér og öðrum verkefnum. Það er að breytast. Í vinnunni er mjög líflegt þegar jól nálgast og svo hef ég tekið að mér útvarpsþátt sem fer í loftið í nóvember á Voice. Ég segi ykkur frá þessum þætti síðar en þarna er talsverð dagskrárgerð en ekki bara að spila tónlist.
Annars eru allir hressir, við Hulda erum að standa okkur ágætlega í bættu líferni og tökum eitt skref í einu. Börnin eru hress, Fanney byrjuð í 7.bekk og Birkir í 2.bekk í M.A. Þau una sátt við sitt. Kötturinn er á sínum stað, verður ljúfari með hverjum deginum en tekur geðsýkisköst annað slagið, síðast í gærkvöldi.
Það er sem sagt allt í sóma hjá fjölskyldunni í Snægilinu. Við tókum fullt af myndum í ferðinni og þætti gaman að fá einhvern í heimsókn til þess að skoða þær með okkur. Verið velkomin í kaffi.
Svo vil ég þakka fyrir kommentin. Haukur er duglegur að kommenta og er oft sá eini. Hann heldur mér oft gangandi. Mér þótti ofsalega gaman að heyra í Sillu vinkonu minni, sjáumst í fjallinu þegar vetrar..... Inga, já þessi bók er algjör snilld. Hún heitir:"Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn". Ég mæli með þessari bók, hún er holl lesning.
Megi dagurinn verða ykkur góður og ánægjulegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skrítið
20.9.2006 | 10:18
Sælt veri fólkið.
Skrítið hvað lífið er stundum skrítið. Hef að undanförnu verið að lesa bók sem hefur opnað huga minn gagnvart mörgu. Það má segja að þetta sé hjálpleg bók í leit að mörgum spurningum lífsins.
Hafið þið til dæmis ekki upplifað það að reyna of mikið. Ég er að meina að þú til dæmis reynir svo að komast í ákveðna stöðu, reynir og reynir en ekkert gengur. Svo hættirðu að reyna og þá gengur allt. EN!!! Þeir fiska sem róa, sem þýðir að ef þú gerir ekkert þá gerist ekkert. Þetta er hvort tveggja rétt. Hvernig má það samt vera?
Skrítið!
Í þessari bók sem ég vitnaði í er sagt frá manni sem langar að ná ákveðnum árangri. Og hann spyr lærimeistara sinn: "Hvað verð ég lengi að læra ef ég legg mig virkilega fram?" Og lærimeistarinn svarar: "Eitt ár". "En ef ég legg mig virkilega fram og reyni enn betur?" Og hann fær svar um hæl: "Tvö ár". Nú skilur neminn ekkert í neinu en heldur áfram: "En ef ég nú legg allar mínar frístundur í að læra? "Þá svarar lærimeistarinn: "Fimm ár". "En ef ég helga mig þessu alveg?"-spyr þá lærlingurinn. "Tíu ár". Þarna er hann hættur að skilja en fær þau svör að ef þú reynir OF MIKIÐ þá verða hlutirnir bara erfiðir. Ég man ekki nákvæmlega hvað bókin segir en þarna þarf maður að ganga þennan hárfína og gullna meðalveg.
Eitt er þó alveg ljóst. Hugurinn okkar og hugarfar skiptir svo rosalega miklu máli. Hugsaðu þér, BARA EF ÞÚ VILT, þá geturðu nánast allt. Horfðu fram á við, láttu hugann reika og ímyndaðu þér hvernig þú vilt vera eftir eitt eða tvö ár. Settu upp leikþátt í huganum og óskaðu þess af öllu hjarta að þetta verði svona. Og með jákvæðu hugarfari og áminningu um þetta nógu oft, þá gerist það.
SKRÍTIÐ!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vangaveltur
19.9.2006 | 20:19
Hæ.
Takk fyrir að kommenta á síðustu færslu, Haukur, Laufey og Inga Björk. Þarna sér maður hvað jafnvel hinir andlausu geta glatt mann en Laufey sagðist andlaus en kommentaði þó.
Það sem Inga sagði þótti mér athyglisvert. Rétt er það að í vinnunni eru aðstæður sem drepa niður alla sköpunargáfu. Þar sit ég við tölvu allann daginn og langar þá ekki til þess að sitja við tölvuna þegar heim er komið. Hitt er svo annað að líklega veita þjáningar manni innblástur í skrif og skáldskap. Þetta hef ég reyndar löngum vitað. Þegar ég var ungur og áhrifagjarn í rússíbana tilfinninganna skapaði ég mörg lög og texta. Besta lagið sem ég hef gert samdi ég í bullandi ástarsorg þegar ég var unglingur. Og KA-lagið, það samdi ég; bæ ðe vei, eftir alveg ótrúlega svekkjandi tapleik hjá KA mönnum á móti Sellfoss árið 1992. Þjáður og þjakaður af tapsæri og geðofsa blossaði upp í hausinn á mér lag og texti. Í ljósi þessa er ekki skrítið þó andinn sé ekki yfir mér í dag, því lífið flýtur þessa dagana eins og lækur.
Haukur talaði um að það væri mikilvægt að blogga nokkuð oft. Ég er sammála því. Flest blogg þarf að skrifa inn á nokkrum sinnum í viku, annars nenni ég ekki að lesa það. Samt finnst mér ekki nóg að skrifa um sjálfan sig, það þarf að vera meira um daginn og veginn, lífið og tilveruna eins og bent hefur verið á.
Það sem ég vil svo bæta við þetta er að maður þarf að fara svolítið ótroðnar slóðir og vera dálítið klikkaður og láta allt flakka.
Látum það verða svo á næstunni......og höfum þetta skemmtilegt.
Yfir og út
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hér er sagan af blogginu sem dó
18.9.2006 | 10:32
Helló.
Jæja, það er kominn mánudagur. Af mér er nú allt ágætt að frétta nema þó að minn stóri skrokkur mótmælti kröftuglega aðfaranótt fimmtudags. Hef verið að bryðja mörg, mörg grömm af verkjastillandi og drukkið 1-2 viskí á dag....... reyndar ekki rétt þetta með viskíið. Svo notaði ég helgina bara í að slaka á og liðka mig upp. Mætti svo eins og tékkneskur spýtukarl í vinnuna.
En af öðru: Ég var að skoða gamla bloggið mitt og skoða færslur aftur í tímann. Það er svo fínt að geta skoðað ýmsa atburði sem maður þarf að muna út frá blogginu. Og þegar ég sá gamla bloggið mitt sá ég að sá kraftur sem var í blogginu mínu er horfinn. Farinn....Ég veit ekki af hverju.
Nú auglýsi ég eftir kommentum frá ykkur ÖLLUM um það hvað vantar. Hvaða neista vantar? Ég vil gagnrýni. Látið það koma............
Hafið það gott í dag, hvar sem þið eruð og munið, dagurinn í dag verður eins góður og þið látið hann verða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)