Lífið-notkunarreglur
1.3.2008 | 10:07
Hæ.
Þessi titill á leikriti eftir Þorvald Þorsteinsson er verulega stór og djúpur.
Hugsið ykkur ef við fengum nú bækling frá æðri máttarvöldum þegar við fæðumst sem segir okkur hvernig við eigum að lifa lífinu
Læra, vinna, læra meira, vera siðprúð, ekki of mikið, ekki of lítið, réttar ákvarðanir, græða, ekki missa sig í græðgi, ekki vinna of mikið, ekki of lítið, hreyfa sig, ekki of feit, ekki of mjó, hugsa, njóta, framkvæma, vantar þetta, vantar hitt, nægjusemi.....
Hvað viltu vera: Bóhem - Forstjóri.
Líklega má segja að það sé vandlifað í þessum heimi þegar við skoðum fréttir vikunnar. Þá er ég að tala um Friðrik Ómar félaga minn sem hefur lengi stefnt að því að komast í Eurovision. Og nú þegar það er í höfn, snýst málið meira um þau orð sem hann lét falla. Ég ætla nú ekki að tala of mikið um þetta því nóg er komið en það er ljóst að við gætum sett það í lífsins notkunarreglur að "Fæst orð bera minnsta ábyrgð" og "Aðgát skal höfð í nærveru sálar".
Ég las einhvern tímann viðtal við Einar Braga rithöfund. Sennilega hafa orð hans náð mér því mér fannst þetta vera vitur maður enda ekkert unglamb þar á ferð. Hann sagði að maður vissi ekkert fyrir þrítugt. Stór orð auðvitað og sennilega hef ég vitnað í þetta áður á blogginu. Hins vegar lærir maður af reynslunni og oft verða slæmu hlutirnir í reynslubankann og kenna manni meira.
- Hvað sem öllu líður í notkunarreglum lífsins og mínum vangaveltum gagnvart lífinum mínu sem stundum er flókið, þá er líðandi stund aðal málið. Hver sekúnda kemur aldrei aftur.
Og þar sem ég vitna hér að ofan í tvö skáld, þá vil ég enda á orðum þriðja stórskáldsins. Þetta er uppáhalds setningin mín og hef ég margoft vitnað í hana enda reynt að nota mér hana á leið minni í gegnum lífið í passlegu kæruleysi.
"Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer alt einhvern veginn, þó margur efist um þá á tímabili". - Halldór Killjan Laxnes
Hafið það gott og góða helgi....og til hamingju með bjórdaginn
Athugasemdir
Þetta er vissulega vandrataður vegur og oft hef ég óskað þess að einhver gæti útvegað mér þessar notkunarreglur. Annars leiddi þessi færsla huga minn að þessu: Life is what happens when your busy doing something else/other things...man ekki alveg hvernig þetta var
Rannveig (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 22:32
Þegar ég fæddist fylgdi víst afhendingarseðill þar sem kom fram: 14 daga skilafrestur.
Kjartan Pálmarsson, 2.3.2008 kl. 18:15
RK (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.