Frá gamla blogginu

Sæl verið þið. Það er frábært veður á Akureyri í dagJoyful- sannkölluð sumarsæla.

Fyrir þá sem eru á Akureyri, verða N3 ásamt Eyþóri Inga að skemmta á Ráðhústorgi í kvöld, milli átta og níu - stuð.

Ég ætla að halda áfram að birta gamlar bloggfærslur og birtist þessi 2005.

 

Ein lítil saga

Langar að deila með ykkur lítilli sögu, sem er leiðinlega sönn. Hef lært það af Huldu og hennar systrum að það getur bara verið gaman að segja frá sínum, ja-hvað skal segja, heimskubrögðum.
Mér datt þetta í hug í tengslum við þessi mannbætandi orð sem ég set í lífsmottó hérna á síðunni.
Jæja, hér er sagan:


Það var þriðjudagur í febrúar árið 1997. Dagur var að kveldi kominn og Hulda var í vinnunni. Fanney var að leika sér og því kom upp sú hugmynd, sem var algeng á þessum árum, að við Birkir tækjum leik í leikjatölvunni hans. Birkir var nýlega búinn að fá Sega Saturn tölvu með forláta fótboltaleik. Þetta var mjög merkilegur leikur á þeim tíma og eins og í öðrum tölvuleikjum, hafði Birkir alveg makalausa færni og heppni í þessum leik.
Þegar þarna var komið við sögu, höfðum við ekki spilað í viku eða tvær en algengt var að við feðgar spiluðum daglega. Hins vegar hafði ég, eins og þjófur um nótt, læðst til æfinga í þessum fótboltaleik og þótti mér ég vera nokkuð öflugur. Nú væri sko kominn tími til að vinna strák-ófétið sem alltaf grísaðist til að vinna.
Áður en lengra er haldið, vil ég taka fram að ég er þannig af hendi skaparans að mér hefur alltaf þótt talsvert meira gaman að sigra en tapa!! Þetta er ættareinkenni.
Nú jæja. Við feðgar göngum á vígvöllinn, sem þarna var litla stofan í Smárahlíðinni fyrir framan litla sjónvarpið. Leikur hefst. Þetta gekk bara vel, stórmeistarajafntefli var lengst af og þannig var þegar flautað var til leikhlés. Þá notaði ég tækifærið og þurrkaði svitann úr lófum og sótti mér örfandi, sem sagt; sterkt kaffi.
Eins og amfetamín-neytandi sat ég einbeittur við seinni hálfleikinn. Og viti menn, æfingar skiluðu sér og ég skoooooraðiiiii!!!!! Jesssss. Þvílík unaðstilfinning. Leikurinn að verða búinn og ég að vinna. Birkir tók þessu með nokkru jafnaðargeði en hefur þó þau gen í sér að þykja ekkert sértstakt að tapa. Tók hann sig á og jafnaði........æji!!! Jæja, jafntefli var ásættanlegt. Sko, leikurinn nánst búinn og þetta verður jafntefli. Tíu, sekúndur, níu, átta, sjö, sex- Birkir nær boltanum og skorar, leikurinn búinn, ég tapaði.
Ég tapaði líka mér, stóð upp, sá allt svart. Ég tapaði enn og aftur fyrir átta ára syni mínum. DJÖ!!!!!!! Ég stóð upp frá tölvunni, gekk þungum skrefum í eldhúsið og fann fyrir þessari óslökvandi þörf að kasta einhverju. Fyrir valinu varð vel þroskaður banani sem Splash!!!!! Lenti í veggnum og varð að bananamauki.

Þennan dag var ég ekki í nokkrum vafa hvor var þroskaðri, ég eða bananinn.

 

16.05.2005 12:41:22 / peturg.blogcentral.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband